Minningarsjóður

Minningasjóður um Oddgeir Kristjánsson stofnaður

Ætlað að halda á lofti nafni og verkum Oddgeirs

11.07.2011
Stofnaður hefur verið minningarsjóður um Oddgeir Kristjánsson tónskáld. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Oddgeirs Kristjánssonar og er stofnaður af fjölskyldu Oddgeirs. Stofnframlag sjóðsins kemur frá vini Oddgeirs, Kjartani Bjarnasyni frá Djúpadal í Vestmannaeyjum, sem með erfðaskrá sinni ákvað að hluti eigna hans skyldu renna í minningarsjóð um Oddgeir. Kjartan tengdist Oddgeiri og fjölskyldu hans sterkum vinarböndum og var einn af stofnfélögum Lúðrasveitar Vestmannaeyja þegar Oddgeir endurreisti þá sveit í mars 1939. Hann lést þann 27. júní 2010 og var sá síðasti af stofnfélögum LV sem kvaddi.

Stjórn sjóðsins skipa þrír menn og er hún valin til þriggja ára í senn frá 1. janúar að telja. Tveir stjórnarmanna eru tilnefndir af fjölskyldu Oddgeirs Kristjánssonar, og fer annar með formennsku í sjóðnum, en Bæjarstjórn Vestmannaeyja skipar þann þriðja.
 
Í stjórn sjóðsins eru núna Hafsteinn G. Guðfinnsson formaður og Birgir Hrafn Hafsteinsson fyrir hönd fjölskyldu Oddgeirs og Ólafur Jónsson sem fulltrúi Bæjarstjórnar Vestmannaeyja.
 
Netfang sjóðsins er minningok hjá simnet.is