Minningar um Oddgeir Kristjánsson (e. Kristínu Ástgeirsdóttur)
 
 
Sumarið 1961 skein sólin dag eftir dag í Vestmannaeyjum. Heima í Bæ, sem stóð við Hásteinsvöllinn, vorum við eldri systkinin á þönum í kringum Óla yngsta bróður minn sem var á fyrsta ári. Við tókum myndir af honum skríðandi úti á grasi og þær sanna hve sumarið var gott. En fleira er til marks um það. Einn daginn hringdi Oddgeir í pabba (Ása í Bæ) og sagðist vera búinn að semja þjóðhátíðarlag. Pabbi settist upp í svarta Skódann og keyrði upp á Heiðarveg 31. Ég fékk að koma með. Oddgeir settist við píanóið og undurfagrir tónar svifu um loftið. Textinn lá eiginlega í augum uppi, þetta var rómantískt sumarlag. Sólbrúnir vangar, siglandi ský og sumar í augum þér. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fylgdist með þeim vinunum Oddgeiri og pabba búa til nýtt þjóðhátíðarlag sem söng sig inn í hjartað frá fyrsta augnabliki.
 
Áður en þetta gerðist vissi ég vel að Oddgeir bjó til lög og pabbi samdi stundum texta, stundum þeir Árni úr Eyjum og Loftur Guðmundsson. Það voru til hljómplötur þar sem Helena Eyjólfsdóttir söng Gömlu götuna, Alfreð Clausen Siglingu og Öskubuskur Vor við sæinn. Það var þó alveg sérstök tilfinning að fylgjast með sjálfri sköpuninni og heyra lagið svo frumflutt á þjóðhátíðinni. Næstu ár var spennandi að bíða eftir nýju lagi en því miður urðu þau aðeins fjögur til viðbótar, því Oddgeir dó langt fyrir aldur fram aðeins 55 ára gamall. Síðustu lögin eru þó án efa á meðal hans allra bestu verka ekki síst Ég veit þú kemur sem Ellý Vilhjálms gerði ógleymanleg skil.
 
Ég þekkti Oddgeir frá mörgum hliðum. Milli heimilis hans og konu hans Svövu Guðjónsdóttur og heimilis pabba og mömmu var djúp vinátta sem erfst hefur frá kynslóð til kynslóðar. Við fórum í afmæli á Heiðarveginn og fjölskylda Oddgeirs kom til okkar. Við „stelpurnar“ gefum hver annarri enn afmælis- og jólagjafir. Oddgeir var pabbi hennar Hildar vinkonu minnar og skólasystur (báðar fæddar 1951) sem og afi Söru, Öggu og Geira, barnanna hennar Bússu (Hrefnu) sem öll bjuggu á heimilinu og tengjast mér sterkum böndum. Hann kenndi mér tónlist í barnaskólanum, stjórnaði barnakór skólans sem ég söng í og ég var í lúðrasveit bæði í barna- og gagnfræðaskóla. Þar lagði Oddgeir mikið á sig til að þóknast okkur sem vorum komin á kaf í Bítlalögin. Hann útsetti ný popplög fyrir lúðrasveitina í Gagganum, t.d. I like it og How do you do sem hljómsveit Gerry and the Pacemakers söng á sínum tíma við miklar vinsældir. Þetta kunnum við lúðurblásarar vel að meta enda sýnir það hve vel Oddgeir fylgdist með áhugamálum okkar.
 
En hvar skal byrja í upprifjun um Oddgeir. Það er þess virði að velta fyrir sér hvernig það gerðist að maður eins og hann, fæddur og uppalinn í fiskibænum Vestmannaeyjum, þar sem lífið var saltfiskur, varð þessi mikli tónlistarfrömuður og ástsæla tónskáld? Hvaðan komu hæfileikarnir og þráin, hvaðan kom hvatningin ef einhver var og hvernig fór hann að því að sinna tónlistinni? Voru það hljómplötur sem kveiktu í honum? Tónlistin sem leikin var undir þöglu kvikmyndunum í Nýja Bíó? Harmonikkutónlist á böllum, kirkjutónlist eða útvarpið eftir að það kom til sögu 1930? Því er ekki auðvelt að svara en sjáum hvað kemur í ljós þegar við förum í gegnum söguna.
 
Oddgeir fæddist í Vestmannaeyjum 16. nóvember 1911 og tilheyrði stórum hópi systkina. Sum þeirra bjuggu lengst af ævinnar í Eyjum, önnur fluttu á brott. Ég man eftir Ólafi sem var bæjarstjóri vinstri manna um skeið, Boggu, Klöru og Lárusi sem öll bjuggu í nágrenninu. Foreldrar Oddgeirs voru þau Kristján Jónsson sem var trésmiður og Elín Oddsdóttir húsmóðir á barnmörgu heimili. Ég man vel eftir þeim sem gömlum hjónum. Þau bjuggu í næsta húsi við Oddgeir og Svövu sem nefndist Breiðabólsstaður en þar bjó einnig dóttir þeirra Bogga með sína fjölskyldu. Gömlu hjónin voru bæði „ofan af landi“, nánar tiltekið úr Fljótshlíðinni. Eins og margir bændasynir átti Kristján erfitt með að segja alveg skilið við sveitina og því var hann með nokkrar kindur í fjárhúsi á bak við húsið. Hann var hreint ekki einn um að vera fjárbóndi í Eyjum upp úr miðri síðustu öld því þeir voru margir og víða í bænum. Fjárhúsin komu sér oft vel á sumrin þegar ungar dömur þurftu að ræða ýmis leyndarmál eða prófa að reykja sem auðveldlega hefði getað kveikt í kindakofanum. Sem betur fer gerðist það ekki.
 
Áður en háskólamenntun tók að aukast að ráði þótti gott að ungir karlmenn lærðu einhverja iðn ef þeir stefndu ekki á sjómennsku. Stúlkur áttu fyrst og fremst að kunna að elda mat og sauma það sem þurfti til heimilisins, sem sagt að búa sig undir líf með börn og bú. Sjórinn freistaði Oddgeirs ekki, heldur hóf hann nám í prentiðn 14 ára gamall, en af einhverjum ástæðum stóð það aðeins eitt ár. Hér þarf að minna lesendur á að á þessum árum var skólaskylda barna aðeins fjögur ár eða frá 10-14 ára. Eftir það fóru flestir að vinna og það gerði Oddgeir eftir að hann hætti í prentnáminu. Hann hóf verslunarstörf jafnframt því að tónlistin sótti á. Hann lærði á trompet hjá Hallgrími Þorsteinssyni og spilaði í lúðraflokki í Eyjum. Jafnframt lærði hann á fleiri hljóðfæri ekki síst gítarinn sem Svava, þá kærastan hans, kom með frá Reykjavík ásamt gítarskóla. Þá lék píanóið í höndum hans. Oddgeir var einn af þeim tónlistarmönnum sem spilaði og kenndi á fjölda hljóðfæra.
 
Veturinn 1931-1932 fór Oddgeir til höfuðstaðarins til að stunda fiðlunám hjá Þórarni Guðmundssyni fiðluleikara sem var bæði tónskáld og frumkvöðull í flutningi tónlistar í útvarpi sem þá var komið til sögunnar. Þráin eftir þekkingu var svo sterk að Oddgeir hélt til Reykjavíkur þótt hann væri kominn með kærustu og barn. Og hér verður að segja deili á Svövu Guðjónsdóttur (1911-1991). Hún ólst upp við Strandveginn rétt hjá heimili pabba í Litla-Bæ og þau þekktust frá blautu barnsbeini. Svava vildi búa sig undir lífið áður en hún hæfi búskap með Oddgeiri en hann var ekki hrifinn að sjá af henni í Reykjavíkursollinn. Hún lét það ekki á sig fá heldur dreif sig til Reykjavíkur 19 ára gömul þar sem hún fékk vinnu á Hótel Skjaldbreið hjá þeim sómakonum Steinunni og Margréti sem ráku hótelið sem var við Kirkjustræti. Þar lærði Svava matargerðarlist sem við nutum sannarlega góðs af meðan hún lifði. Beinlausir fuglar, heimalagaðar súpur, sveskjusufflé og suðræn terta eru minnisstæðir réttir af því gnægtaborði. Sumarið 1930 vann Svava á Alþingishátíðinni á Þingvöllum og hún vann einnig á saumaverkstæði um skeið. Þar með var hún búin að búa sig eins og kostur var undir lífið og næsta ár kom Hrefna í heiminn.
 
Árið 1930 fögnuðu Íslendingar 1000 ára afmæli Alþingis en blikur voru á lofti. Heimskreppan var skollin á og þetta ár varð verðhrun á saltfiski og síld sem voru aðalútflutningsvörur landsins. Í kjölfarið fylgdu gjaldþrot, vaxandi atvinnuleysi, stéttaátök og pólitískur órói af ýmsu tagi. Oddgeir varð að hætta náminu hjá Þórarni og snúa sér að brauðstritinu. Þau Svava giftust 1933 og bjuggu til að byrja með í risinu á Hásteinsvegi 42. Þar var oft glatt á hjalla, sungið, spilað og spjallað um heima og geima. Þangað komu meðal annarra Árni úr Eyjum, Björn Guðmundsson síðar kaupmaður og pabbi sem um skeið reyndi að læra á fiðlu hjá Geira. Þótt þjóðfélagsástandið væri erfitt var margt brallað, samdir kabarettar og skemmtisöngvar ekki síst til stuðnings verkalýðshreyfingunni og baráttu hennar sem þeir félagarnir studdu með ráðum og dáð. Á þessum árum fór Geiri að spila í danshljómsveit, þeirri fyrstu sem vitað er um í Eyjum. Oft hefur verið vitnað til þess að auglýsingar hljómsveitarinnar enduðu alltaf á þessum orðum: „Jazzinn spilar. Nefndin“. Þeir félagar tengdust allir Leikfélagi Vestmannaeyja. Pabbi lék í sýningum, Oddgeir spilaði í leikritum þar sem söngur kom við sögu, t.d. í Ævintýri á gönguför og Árni var formaður félagsins um skeið.
 
Hér er rétt og skylt að skjóta inn nokkrum orðum um Árna úr Eyjum (1913-1961) sem ég man reyndar ekki eftir að hafa séð. Hann dó einnig langt fyrir aldur fram eftir margra ára baráttu við berkla. Árni var sonur Guðmundar skipstjóra og skipasmiðs á Háeyri og Jónínu konu hans. Hann var menntaður kennari. Af þeim félögunum var hann langvirkastur í stjórnmálum, var bæjarfulltrúi Sósíalistaflokksins 1942-1947 og sat í fjölda nefnda og stjórna, auk þess að sinna kjaramálum kennara og vera formaður leikfélagsins. Árið 1947 varð hann að fara á Vífilstaði vegna berklaveiki og þaðan átti hann ekki afturkvæmt. Þvílík sorgarsaga þessa hæfileikaríka manns. Þvílík skörð sem berklarnir hjuggu í raðir Íslendinga. Árna var létt um að skrifa og yrkja og eftir hann liggja margir frábærir textar við lög Oddgeirs, ekki síst Ágústnótt sem lýsir þjóðhátíðarstemningunni svo undur vel. Þá má líka nefna söng SÍBS við lag Oddgeirs tregafullt en afar vel ort kvæði. Það var þeim félögum mikið áfall að sjá á eftir Árna á hælið en þetta sama ár urðu þau Oddgeir og Svava fyrir hræðilegu áfalli er sonur þeirra Kristján dó úr berklum tæplega níu ára gamall. Þetta voru erfið ár því um svipað leyti misstu pabbi og mamma tvíbura. Oddgeir, Svava, pabbi og mamma brugðust við með því að mynda kvartett og sungu saman til að sefa sorgina.
 
Hverfum aftur til fjórða áratugarins en þá fóru fyrstu lög Oddgeirs að heyrast. Fyrsta lagið sem þekkt varð heitir Inosent (Ship ohoj) en fyrsta þjóðhátíðarlagið var Setjumst að sumbli (1933) og síðan fæddust þau eitt af öðru. Í byrjun september árið 1939 hófst síðari heimsstyrjöldin og vorið eftir, nánar tiltekið 10. maí 1940, urðu mikil tíðindi á Íslandi er breskur her gekk á land. Herflokkur settist að í Eyjum, byggði bragga og setti mark sitt á bæjarlífið. Á örskömmum tíma hvarf atvinnuleysið og næstu árin lögðu íslenskir sjómenn líf sitt í hættu við að sigla með fisk til Bretlands. Útflutningurinn kallaði á mikil umsvif og þau birtust m.a. í mikilli fjölgun vörubíla sem fluttu fisk og ýmislegt annað sem flytja þurfti. Oddgeir gerðist framkvæmdastjóri Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja 1943 og gegndi því starfi til 1956 er hann var ráðinn tónmenntakennari við barnaskólann en þar með varð tónlistin hans aðalviðfangsefni. Bifreiðastöðin var staðsett neðarlega við Heiðarveginn og þangað komum við stelpurnar oft því Oddgeir leysti stundum af á sumrin eftir að hann hætti sem framkvæmdastjóri. Við vorum að sníkja sælgæti ef ekki bílferð sem var nú ekki vinsælt.
 
Stríðið útrýmdi kreppunni. Peningar streymdu inn í landið og lífskjör tóku að batna verulega. Veturinn 1944-1945 tók Oddgeir sér frí frá bílastöðinni og hélt enn til náms í Reykjavík að þessu sinni til Róberts A. Ottóssonar hámenntaðs tónlistarmanns frá Þýskalandi sem leitað hafði skjóls hér á landi undan gyðingaofsóknum nasista. Oddgeir stundaði námið í einn vetur en hélt síðan áfram í gegnum eins konar bréfaskóla. Róbert sendi honum verkefni eða tóndæmi sem hann leysti og síðan gerði Róbert athugasemdir eða kom með uppástungur um lausnir. Oddgeir sagðist hafa lært mjög mikið af honum, eins og sjá má í nótnaheftinu Vor við sæinn. Þessarar þekkingar naut Lúðrasveit Vestmannaeyja sem Oddgeir endurreisti 1939 og síðar við sem vorum í skólahljómsveitunum.
 
Sjötti áratugurinn var afar frjósamur í tónlistarsköpun Oddgeirs. Þá urðu til lög eins og
Heima, Gamla gatan og Síldarstúlkurnar. Þegar hér var komið sögu voru þau Svava og Oddgeir flutt að Heiðarvegi 31 í afar líflegt umhverfi og þar bættist Hildur við fjölskylduna 1951. Vestanmegin götunnar ofan við Hásteinsveg voru nokkrir verkamannabústaðir og eru enn en austanmegin voru einbýlishús. Ólafur Kristjánsson bróðir Oddgeirs teiknaði nokkur þeirra ef ekki öll. Eins og áður er nefnt bjó Bogga systir Geira fyrir neðan Heiðarveg 31 en fyrir ofan bjó Ólafur bæjarstjóri (eins og við kölluðum hann alltaf) með sinni skrautlegu og góðu konu Marý Friðriksdóttur sem var systir Binna í Gröf svo hún sé nú staðsett í tilverunni. Þau hjónin skildu og þá flutti sjálf prímadonna bæjarins Unnur Guðjónsdóttir leikkona og Sigfús maður hennar í húsið og ekki dró það úr fjörinu. Þar fyrir ofan bjuggu Salomé Gísladóttir frá Arnarhóli og Vigfús maður hennar með syninum Gísla sem var jafngamall okkur Hildi Oddgeirsdóttur. Í verkamannabústöðunum bjuggu víða barnmargar fjölskyldur. Efst var heimili Páls krata og Heiðu með stóran barnahóp sem voru þó flest hver að æfa flug að heiman nema Tobbi jafnaldri minn. Egill og Magga komu næst með sín fimm, þá Helgi Þorsteinsson og Hulda á Hrafnagili með eina dóttur, Ingólfur Theodórsson netagerðarmeistari og Sigga í Skuld með sín fimm, svo Kristinn Magnússon skipstjóri og Helga Jóhannesdóttir hjúkrunarkona með fjögur börn. Fyrir neðan Verkó eins og við kölluðum heimili Helgu Jó bjuggu Jónína og Ingimundur en þeirra börn voru uppkomin, svo komu Bjössi og Inga en dóttir þeirra Alda og Hilmir maður hennar voru á neðri hæðinni með fjögur börn. Þar næst komu þau Páll Eyjólfsson og Fanný með tvö eftir heima og loks Bjarni rakari og Kristín kona hans með þrjú börn en sonur þeirra dó ungur. Á Heiðarvegi 38 bjó Stefán Árnason yfirlögregluþjónn og stórleikari en á neðri hæðinni hjá honum leigðu foreldrar mínir með tvö börn. Það var því stutt á milli heimila Oddgeirs og pabba þar til við fluttum inn í Bæ 1957. Þessi gata bernskunnar var full af börnum og afar skemmtilegum konum og körlum. Bílar voru fáir og því hægt að leika sér á götunni. Í svo barnmargri götu var mikið um afmæli og þegar haldið var upp á afmæli Hildar, Söru eða Öggu settist Oddgeir jafnan við píanóið og við sungum ýmis lög ekki síst upp úr Fjárlögunum (Íslenskt söngvasafn).
 
Á Heiðarvegi 31 var oftast mikið líf og fjör. Þangað komu konurnar úr næstu húsum í kaffi til að leita frétta og miðla fréttum. Í stofunni kenndi Oddgeir á gítar eða önnur hljóðfæri, þar æfði lúðrasveitin stundum sem og listamenn sem komu í heimsókn. Ég man eftir því að hafa heyrt Sigurð Ólafsson söngvara æfa með Oddgeiri fyrir þjóðhátíð og þvílík rödd. Mér fannst húsið leika á reiðiskjálfi. Erlendir gestir komu oft í heimsókn sem og ættingjar Svövu frá Ameríku og úr Grindavík þar sem Laufey systir hennar var búsett. Það var líka haldið upp á afmæli fullorðna fólksins á heimilinu og alltaf fengum við krakkarnir að vera með, jafnvel þótt vín væri haft um hönd. Það var verið að miðla menningararfinum milli kynslóða með sögum og söngvum allt frá Tyrkjaráninu til okkar daga. Lúðrasveitarfélagar voru áberandi í þessum boðum, t.d. Kjartan í Djúpadal sem var kostgangari hjá Svövu um árabil. Þetta var náinn félagsskapur sem fór í ferðir jafnt innanlands sem utan. Þegar lúðrasveitin brá sér til Tékkóslóvakíu 1959 fóru pabbi og mamma með og það varð mikið ævintýri sem oft var rifjað upp. Ekki síst þótti sósíalistunum sem voru í förinni mikið um samvistir við rithöfundinn Þórberg Þórðarson á siglingunni til Kaupmannahafnar. Þetta voru ljúfir dagar.
 
Líf Oddgeirs var ekki bara vinna og tónlist. Þau hjónin höfðu mikinn áhuga á garðrækt og komu sér smátt og smátt upp afar fallegum garði. Á bak við húsið var útbúin laut með grasbekk og þar var setið og drukkið kaffi á góðviðrisdögum sem voru margir í minni æsku. Oddgeir var líka áhugaljósmyndari og tók ógrynni mynda, t.d. af þarapollunum úti í Klauf og náttúrunni á Heimaey. Hildur hefur gefið mér stækkaðar myndir sem Oddgeir tók, þar á meðal eina af pabba tekin niður við höfn, sem er hreint listaverk.
 
En skjótt skipast veður í lofti. Veturinn 1965-1966 kenndi Oddgeir sér meins en áður en tækist að greina það og lækna hóf sláttumaðurinn slyngi ljáinn á loft. Þann 18. febrúar 1966 varð Oddgeir bráðkvaddur við kennslu. Áfallið var mikið, ekki aðeins fyrir fjölskylduna og vini heldur fyrir bæjarfélagið allt sem missti einn sinna bestu sona. Pabbi lá í sínu illkynja fótarmeini þegar þetta gerðist og komst ekki einu sinni í jarðarförina en sorg hans var mikil. Það eina sem hann gat gert var að skrifa minningargrein um Oddgeir og yrkja til hans vinarkveðju. Jarðarför Oddgeirs gleymist þeim ekki sem þar voru. Þar var mikil tónlist og meðal annars sungum við nokkrar sem höfðum verið í barnakórnum hjá Oddgeiri: Ástarfaðir himinhæða.
 
Eftir stendur tónlistar- og mannauðurinn sem Oddgeir skilur eftir sig. Við vitum ekki nákvæmlega hve mörg lögin hans eru en fullvíst er að þau eru vel á fimmta tuginn. Hitt vitum við að í börnum hans, barnabörnum og barnabarnabörnum lifir tónlistargenið góðu lífi og þau standa vörð um arfinn með því að gefa út, flytja og fræða. Nú síðast lagði fjölskylduvinurinn Kjartan Bjarnason í Djúpadal sitt af mörkum með því að gefa eignir sínar til stofnunar minningarsjóðs um Oddgeir. Hann verður vonandi til þess að ævisaga Oddgeirs verði skrifuð og tónlist hans rannsökuð og sett í samhengi við þann tíma sem þau tilheyra og þá sögu og samfélag sem þau eru sprottin úr. Þá fáum við kannski skýrari svör við þeim spurningum sem ég setti fram í upphafi um hvað hvatti Oddgeir til dáða, hvað hafði mest áhrif á hann og hvernig hann skapaði lögin sem eru okkur Vestmannaeyingum svo kær.
 
Ég lýk þessum orðum með því að vitna í síðustu erindin í Vinarkveðju Ása í Bæ.
 
Um lífssjóinn berumst við stað úr stað
en stundum það hverfur úr sefa
að manngildið einungis mælist við það
hve mikið þú átt til að gefa.
Og það var nú einmitt þitt sérstaka svið
að sjá hvað þú hreinn og glaður
öllu því fegursta lagðir lið
lífinu sannur maður.
Og þannig þú varðveittir æskunnar eld
og upprunalegasta róminn
karlmennska verður ei keypt eða seld
sem kveður sín lög fyrir blómin.
 
Mín þökk er djúp eins og tregans tár
en traustur skal sá hlynur
er hlúðir þú að í öll þau ár
sem áttum við saman vinur.
 
Kristín Ástgeirsdóttir.