Stofnaður hefur verið minningarsjóður um Oddgeir Kristjánsson tónskáld. Sjóðurinn heitirMinningarsjóður Oddgeirs Kristjánssonar og er stofnaður af fjölskyldu Oddgeirs. Stofnframlag sjóðsins kemur frá vini Oddgeirs, Kjartani Bjarnasyni frá Djúpadal í Vestmannaeyjum, sem með erfðaskrá sinni ákvað að hluti eigna hans skyldu renna í minningarsjóð um Oddgeir. Kjartan tengdist Oddgeiri og fjölskyldu hans sterkum vinarböndum og var einn af stofnfélögum Lúðrasveitar Vestmannaeyja þegar Oddgeir endurreisti þá sveit í mars 1939. Hann lést þann 27. júní 2010 og var sá síðasti af stofnfélögum LV sem kvaddi.
Oddgeir var vinsæll og mikils metinn maður í tónlistar- og bæjarlífi Vestmannaeyja ekki síst vegna sinna ástsælu laga. Hann var tónlistarkennari við Barnaskóla Vestmannaeyja í mörg ár en auk þess kenndi mörgum Eyjamönnum á hljóðfæri bæði börnum og fullorðnum. Hann stjórnaði Lúðrasveit Vm frá stofnun 1939 til dauðadags en auk þess Lúðrasveitum í bæði Barnaskóla og Gagnafræðaskóla Vestmannaeyja. Það voru því æði mörg ungmenni sem nutu leiðsagnar hans í tónlistarsviðinu í gegnum skólagöngu sína. Þetta starf Oddgeirs hefur búið með Vestmannaeyingum allar götur síðan enda telja þeir hann tvímælalaust sinn mann og minnast hans með hlýju og virðingu. Það kom berlega í ljós um aldamótin síðustu þegar hann var valinn maður 20. aldarinnar í Vestmannaeyjum af lesendum Frétta, bæjarblaðs Vestmannaeyinga.
Það er fjölskyldu Oddgeirs mikils virði að sjóður helgaður minningu hans skuli stofnaður nú, því eins og mörgum er kunnugt verða þann 16. nóvember næstkomandi liðin 100 ár frá fæðingu Oddgeirs. Ekki síður er það mikils metið að svo rausnarlegt framlag sem stofnfé sjóðsins er, komi frá vini hans Kjartani Bjarnasyni.
Stjórn sjóðsins skipa þrír menn og er hún valin til þriggja ára í senn frá 1. janúar að telja. Tveir stjórnarmanna eru tilnefndir af fjölskyldu Oddgeirs Kristjánssonar, og fer annar með formennsku í sjóðnum, en Bæjarstjórn Vestmannaeyja skipar þann þriðja. Hverfi stjórnarmaður úr stjórn skulu sömu aðilar skipa nýjan í hans stað.
Stjórnin mun halda gjörðabók og verða fjárreiður og reikningshald sjóðsins á hendi sjóðsstjórnar. Reikningsárið er almanaksárið og skulu reikningar gerðir af sjóðstjórn og yfirfarnir af skoðunarmanni. Stjórnarmenn verða Hafsteinn G. Guðfinnsson formaður og Birgir Hrafn Hafsteinsson fyrir hönd fjölskyldu Oddgeirs en Bæjarstjórn Vestmannaeyja mun á næstunni skipa sinn fulltrúa.
Í reglum sjóðsins segir meðal annars: „Tilgangur/markmið sjóðsins er að styrkja verkefni sem fjalla um líf og starf Oddgeirs Kristjánssonar tónskálds frá Vestmannaeyjum og stuðla að því að halda nafni hans á lofti. Þar getur verið um að ræða hvers konar nýja úrvinnslu eða nálgun á tónlistarverkum Oddgeirs, útgáfa, útsetningar, rannsóknir, kynningar og skrif eða önnur þau verkefni sem gera lífi hans og starfi skil.“
Um styrkumsóknir segir: „Hver styrkumsókn skal vera undirrituð af ábyrgðarmanni og henni skal fylgja greinargerð um markmið verkefnisins og áætlaðan heildarkostnað, fjármögnun og hvenær verkinu á að ljúka. Sá sem hlýtur styrk skal í lok verkefnis skila til sjóðsstjórnar samantekt og afriti af afurð verkefnisins og lýsingu á hvernig til hefur tekist með verkið.“
Stjórn sjóðsins er heimilt að hafa forgöngu um verkefni sem hún telur æskilegt að vinna sbr. tilgang sjóðsins. Í undirbúningi er að setja upp heimasíðu um Oddgeir Kristjánsson og verk hans sem tengjast mun vefsíðunni Heimaslóð. Á síðunni verður lífi og starfi Oddgeirs gerð skil og þar verða reglur um Minningarsjóðinn gerðar aðgengilegar fyrir þá er áhuga hafa. Auglýst verður í blöðum hvenær hægt verður að sækja um styrki í sjóðinn. Nú þegar eru komnar fram allmargar hugmyndir að verkefnum. Sjóðstjórn mun leitast við að halda Vestmannaeyingum upplýstum um hvaða verkefni hljóta styrki.
Stjórn sjóðsins vill gefa áhugasömum aðilum tækifæri til að leggja sjóðnum lið þannig að hann geti komið af krafti að sem flestum verkefnum sem varða líf og starf Oddgeirs.. Ef fólk, félög eða fyrirtæki hafa áhuga á að styðja við sjóðinn með framlögum eru þau þegin með þökkum en reikningsnúmer sjóðsins 582-26-650 (kt. 621210-1140) í Íslandsbanka í Vestmanneyjum.
F.h. stjórnar Minningarsjóðs Oddgeirs Kristjánssonar.
Hafsteinn G. Guðfinnsson formaður