Vefurinn oddgeir.is er tileinkaður Oddgeiri Kristjánssyni tónskáldi úr Vestmannaeyjum. Það er fjölskylda Oddgeirs sem stendur á bak við vefinn og hefur komið honum upp. Markmiðið með vefnum er m.a. að safna saman ýmsum heimildum um Oddgeir bæði skrifuðum og annars konar og gera aðgengilegar með það í huga að lesendur geti kynnst manninum, sem margir þekkja fyrst og fremst í gegnum lögin hans.
 
Það er von okkar sem að vefnum standa að hann megi verða þeim sem skoða hann til gagns og gamans og bendum við sérstaklega á myndasafnið þar sem má finna töluverðan myndafjölda. Þar sem talsverð vinna felst í því að koma myndasafni Oddgeirs á tölvutækt form má búast við að einhvern tíma taki að koma því öllu inn á vefinn. Er þá ótalin vinna við að merkja myndir með myndatextum og skýringum eins og hugur okkar stendur til.
 
En þó verkefnið sé ærið, þá er engin ástæða til þess að bíða með opnun heimasíðunnar. Það er eðli slíkra vefsetra, sem þessa, að vera lifandi heimild og það er markmið okkar að svo verði í þessu tilfelli.
 
Ef þú átt í fórum sínum einhverjar heimildir, myndir, bréf eða annað efni sem tengist Oddgeiri og er tilbúin(n) að leyfa okkur að nýta það á vefinn þá værum við ævinlega þakklátir.
 
Kveðja,
Hafsteinn Guðfinnsson
Birgir Hrafn Hafsteinsson