Gísli Helgason skrifar
 
 
Minningar með Ása í Bæ, formáli að bókinni sem fylgir minningadisk um Ása í Bæ sem ber heitið „Ó fylgdu mér í Eyjar út”.
 
Ástgeir Ólafsson einsog hann hét, en er þekktur undir nafninu Ási í Bæ, fæddist í Litlabæ í Vestmannaeyjum þann 27. febrúar 1914. Hann átti ættir að rekja til sjósóknara í Eyjum og lífið þar var hans yndi. Snemma kom í ljós að Ási gekk ekki heill til skógar líkamlega. Hann var alltaf veill í öðrum fæti og svo fór að rétt þegar Ási varð sextugur var fóturinn fjarlægður. Þó hann væri ekki líkamlega hraustur, ætlaði hann sér hvað hann gat að standa öðrum ófötluðum jafnfætis. Og hann vann líkamlegan vanmátt sinn upp með leiftrandi greind, skáldskap og væntumþykju til þess, sem lifir. Sérstaklega var honum annt um þá, sem töldust minnimáttar eða stóðu að einhverju leyti utan garðs. Hann orti um lífið og tilveruna. Brá upp lifandi myndum af ástinni, sjónum, fiskiríinu og ímyndaði sér að þegar sólsetrið varpaði rauðgullnum blæ á hafflötinn, þá drykkju saman rennandi rauðvín ránardætur og himinský. Þá orti hann um sjómanninn, sem hugsaði um elskuna sína í landi og raulaði;
 
„Á sjónum ég hugsa um þorskinn og þig,
en þú hugsar auðvitað bara um mig.“
 
Á þeim árum voru ekki til karlrembur, menn voru það, sem þeir voru. Við Ási kynntumst ekki að marki fyrr en báðir voru fluttir til Reykjavíkur. Við áttum þó það sameiginlegt að hafa sterkar taugar heim til Eyja og þær bundu okkur saman. Hvar sem Ási fór, var tekið eftir honum. Einu sinni trúði Ási mér fyrir því að hann ætlaði að láta verða af því að læra á gítar. Hann langaði að halda grandkonsert í Norræna húsinu í Reykjavík, þegar hann yrði sjötugur. Þetta átti að vera í anda bæjaranna, en svo kölluðust þeir, sem voru frá Litlabæ í Eyjum, og það gerði ekkert mikið til þótt allir væru aðeins meira edrú en á þjóðhátíð og fólk yrði að syngja með. Og þessi grandkonsert var haldinn í Norræna húsinu þann 27. febrúar árið 1984. Ási lék á alls oddi. Fullt var út úr dyrum. Góðir vinir hans, svo sem Árni Johnsen, Palli Steingríms, Haukur Morthens, Grettir Björnsson, Ingi Gunnar Jóhannsson, Halldór Kristinsson og Arnþór og Gísli Helgasynir ásamt Óla Gauk og Svanhildi og miklu fleirum lögðu hönd á plóginn til þess að gera þessa tónleika, þannig að þeir yrðu söngvaskáldinu til sóma. Og sjálft Norræna húsið raulaði hástöfum með, þegar gestir þess tóku kröftuglega undir.
 
Á diskinum, sem fylgir bæklingi með efni eftir Ása í Bæ eru aðallega hljóðritanir úr Norræna húsinu frá sjötugsafmæli Ása. Þessar upptökur geyma mynd af ógleymanlegum listamanni, sérstæðri persónu og góðu skáldi, sem með lögum sínum og ljóðum mun ylja þeim, sem muna hann og eiga eftir að kynnast honum. Árið 1989 var gefin út snælda ásamt bæklingi með svipuðu efni með styrk frá Vestmannaeyjabæ. En síðan þá hefur sitthvað komið í ljós, sem ekki var vitað um áður. Við höfum leitað víða fanga, m.a. í segulbandasafn Ríkisútvarpsins. Skömmu fyrir andlát sitt, 1. maí 1985, hóf Ási að lesa minningabók sína Skáldað í skörðin hjá Blindrabókasafni Íslands. Kaflar úr þeim upplestri eru notaðir til þess að tengja saman efnið á diskinum.
 
Þegar Ási lagði upp í ferðina löngu, þá settist hann með gítarinn sinn í hægindastól. Hvort skaparinn hafi þá kallað hann í gítartíma veit ég ekki. En gítarleikur Ása og raulið hans gerðu hann svo sérstæðan og ógleymanlegan þeim, sem honum kynntust. Fjölmargir hafa ljáð þessari útgáfu lið. Gunnlaugur Ástgeirsson sonur Ása veitti ómetanlega aðstoð við öflun heimilda. Sparisjóður Vestmannaeyna veitti myndarlegan styrk til útgáfu þessarar. Fyrir tilviljun lét ég hljóðrita tónleikana í Norræna húsinu á sjötugsafmæli Ása 27. febrúar 1989. Ingi Gunnar Jóhannsson varðveitti spólurnar og því er þessi ómetanlega heimild um einstæðan listamann til. Allir sem lögðu hönd á plóginn við útgáfu þessa fá alúðarþakkir. Það er einlæg von okkar Inga Gunnars að útgáfa með minningum með Ása í Bæ verði til þess að halda nafni hans á loft og skáldskap. Enginn hefur orðað eins vel þá þrá, sem Vestmannaeyingar bera til Eyjanna, sem Ási, þegar hann segir:
 
„Þó á Höfðanum þjóti ein þrettán stig,
ég þrái heimaslóð.“
 
8. febrúar 2004
Gísli Helgason