-Kristín Ástgeirsdóttir minnist föður síns, Ása í Bæ, sem hefði orðið 90 ára þann 27. febrúar 2004 nk. Birtist í vikublaðinu Fréttum.
 
 
Hvað á ég að skrifa um föður minn Ása í Bæ (1914-1985) jafn margræðan mann og hann var. Á ég að fjalla um pabbann sem sagði okkur sögur, t.d. um litla karlinn og stóra karlinn sem björguðu börnum frá tröllskessu úti í hrauninu í Vestmannaeyjum. Pabbann sem bjó til söguna um Drotakarlinn sem bjó niðri í kjallaranum undir þvottahúsinu hjá olíufírnum á Heiðarvegi 38. Þar leigðu foreldrar mínir hjá Stebba pól til ársins 1957 en pabbi gaf húsinu heitið Pólland, Stebba til heiðurs. Lítil börn áttu ekkert erindi niður snarbrattan stigann ofan í kjallarann og því þótti ráð að beita þessari óvætt til að fæla okkur Gunnlaug bróður minn frá. Pabbann sem fór með okkur út í Klauf á góðviðrisdögum til að sulla í sjávarpollum eða til að horfa á brimið bylta sér með gný eftir óveður. Á ég að skrifa um pabbann sem las fyrir okkur sögur, hvatti okkur til náms, hélt að okkur góðum bókum og lagði áherslu á hve brýnt væri að tala og skrifa gott mál.
 
 
Útgerðarmaðurinn, kokkurinn og trillukarlinn
Á ég kannski heldur að skrifa um heimilisföðurinn sem steikti lúðu í brúnni sósu með lauk þannig að varð að lostæti og eldaði sér kjötsúpu með súpujurtum til að vinna bug á þynnku. Er það kannski útgerðarmaðurinn, sjómaðurinn, kokkurinn og loks trillukarlinn sem ég ætti að gera skil. Sjórinn var hluti af lífi okkar allra, þaðan kom björgin og hann hefði hrifið pabba minn með sér í dauðann hefði ekki sá snarráði háseti, Óskar á Háeyri, hent sér á eftir honum og dregið hann upp.
 
Sjórinn dró hann föður minn til sín alla tíð og síðustu árin sem hann lifði fékk hann ómótstæðilegan fiðring þegar komið var fram í mars og sól tekin að hækka á lofti. Hann varð að komast út í Eyjar á skak. Ég held reyndar að hann hafi gengið fram af sér við þá sjómennsku.
 
 
Sósíalistinn
Þá ætti sósíalistinn skilið sína umfjöllun. Hádegisfréttir voru heilög stund og ekki voru Frökkum vandaðar kveðjurnar í Alsírstríðinu, hvað þá Bandaríkjmönnum eftir að þeir hófu afskipti af Víetnamstríðinu. Sú heimsmynd sem miðlað var til mín var af fólki í Afríku og Asíu sem barðist fyrir rétti sínum gegn nýlenduveldum og heimsvaldasinnum í okkar heimshluta.
 
Við áttum að standa með lítilmagnanum og mennta okkur til þess að gera samfélagið betra, jafnara og fegurra. Sovétríkin voru aftur viðkvæmara mál og stjarna þeirra ört hrapandi þegar ég var að komast til vits og ára enda fylgdist pabbi vel með, las bækur andófsmanna sem sögðu farir sínar ekki sléttar af viðskiptum við Sovétvaldið. Innrásin í Ungverjaland 1956 var hörmuleg og ekki bætti úr skák þegar hópur bláfátækra landflótta Ungverja kom til Eyja þar sem þeir dvöldu um sinn og minntu á yfirganginn. Það var ekki auðvelt fyrir sósíalista að horfa á framferði stórveldisins í austri og koma því heim og saman við drauminn um samfélag jafrréttis og bræðralags sem Sovétríkin áttu auðvitað ekkert skylt við.
 
Sósíalistaflokkurinn var samt hans flokkur og þær voru ófáar kosningarnar sem við fylgdumst spennt með, bæði í bænum þar sem vinstri flokkarnir áttu í harðvítugri baráttu við „íhaldið“ og náðu meirihluta öðru hvoru. Kratar voru þó ekki hátt skrifaðir hjá föður mínum og átti það rætur í harðvítugri baráttu fjórða áratugarins þegar kratar og kommar tókust á um stjórnir verkalýðsfé-laganna. Það varð þó að vinna með þeim því enn var í fullu gildi slagorð Tryggva Þórhallssonar framsóknarforingja frá árinu 1927: „allt er betra en íhaldið“.
 
Pabbi sat í nefndum á vegum Flokksins en mér fannst furðulegt að hann var lengi í niðurjöfnunarnefnd útsvara en það stafaði sennilega af því að hann hafði Samvinnuskólapróf og var því talinn hafa vit á tölum. Mér fannst þó „Flokkurinn“ dularfullt fyrirbæri ekki síst þegar þáverandi foringi hans í Eyjum, Sigurður Stef-ánsson verkalýðsforingi, heimsótti pabba inn í Bæ og þeir læstu að sér til að ræða málin. Ég hefði viljað vera fluga á vegg til að geta nú sagt frá því sem þeim fór á milli og hvað verið var að bralla í baráttunni.
 
 
Sögumaðurinn og rithöfundurinn
Þá var það sögumaðurinn Ási í Bæ. Pabbi var sögumaður af guðs náð og hafði gaman af að segja frá körlum og kerlingum eða einhverju kómísku sem hann eða aðrir höfðu lent í. Sem betur fer skráði hann margar þessar sögur í bókina Skáldað í skörðin sem er að mínum dómi hans besta bók. Það voru ógleymanlegar stundir á seinni árum þegar hann og Svava Guðjóns, ekkjan hans Oddgeirs Kristjánssonar, komust á flug, því hún var líka mikil sögukona og minnug með afbrigðum. Þau bjuggu til eins konar fléttusögur þar sem annað tók við af hinu, minnti á eða skaut inn í, enda voru þau alin upp á sömu torfunni við Strandveginn og þekktust alla tíð.
 
Enn einn hlutinn af föður mínum var svo rithöfundurinn sem gekk með svo margar sögur í maganum en varð að láta brauðstrit ráða för auk veikinda sem svo oft settu strik í reikninginn og ollu honum ómældum kvölum. Hann kom þó frá sér nokkrum bókum þar með talið ljóðabálki um Grænland sem hann var heillaður af en vissulega hefði hann óskað þess að verkin yrðu fleiri.
 
 
Þeir eru hluti af menningararfinum
Lýsingar á ofangreindum hliðum pabba míns verða að bíða betri tíma því ég vil á þessu níutíu ára afmæli hans minnast þess sem mun líklegast halda nafni hans lengst á lofti, samvinnu hans við Oddgeir Kristjánsson og þau lög og texta sem út úr því komu. Þar náði hann hátindi enda eru lögin hans Geira við texta þeirra vinanna Árna úr Eyjum, Lofts Guðmundssonar og pabba orðin hluti af menningararfi okkar og lifa góðu lífi.
 
Það var einhvern tíma seint á sjötta áratugnum sem ég gerði mér grein fyrir því að lögin hans Oddgeirs voru spiluð í útvarpinu og að pabbi minn hafði samið suma textana. Þessi lög voru spiluð og sungin í öllum afmælum og boðum og voru bara hluti af lífinu. Þegar þau voru komin í útvarpið fengu þau nýja vídd. Haukur Morthens söng á sinn frábæra hátt Heima, Alfreð Clausen Blítt og létt, Öskubuskur Bjartar vonir vakna, Helena Eyjólfs Gömlu götuna og Erling Ágústsson Maju litlu en þar átti pabbi bæði lag og texta.
 
Þessar 78 snúninga plötur voru til heima en því miður brotnuðu þær hver á fætur annarri í höndum okkar barnanna. Ég þekki ekki söguna á bak við þessar útgáfur en hitt veit ég að þegar Svavar Gests fór að koma með sína fínu hljómsveit til Eyja upp úr 1960, þar sem eðalsöngvararnir Ellý Vilhjálms og Ragnar Bjarnason sungu, þá áttaði Svavar sig á hvílíkan lagafjársjóð var að finna í Eyjum.
 
 
Enginn komst með tærnar þar sem Ellý hafði hælana
Hann átti mikinn þátt í að koma þjóðhátíðarlögunum og öðrum lögum á víníl í frábærum útsetningum. Ragnar söng lag Oddgeirs Ship ohoj við texta Lofts Guðmundssonar og Vertu sæl mey en það lag er eftir pabba en textinn eftir Loft. Ellý gerði Ég veit þú kemur, þjóðhátíðarlag ársins 1962, ódauðlegt. Þrátt fyrir margar útgáfur af því lagi finnst mér enginn komast með tærnar þar sem Ellý hefur hælana svo frábær er hún og ekki spillir saxófónleikur Gunnars Ormslevs fyrir.
 
Síðan kom hljómsveit Ólafs Gauks sem gerði stóra plötu með lögum Oddgeirs. Ég var ekki hrifin af þeirri plötu þá, fannst hún kannski ekki nógu rokkuð eða bítlaleg, en mér er löngu ljóst hve mikinn þátt hún átti í að kynna lögin, auk þess sem útsetningar Óla Gauks eru fínar. Síðan eru útgáfurnar orðnar óteljandi.
 
Fyrsta lagið sem ég fylgdist með fæðast var Sólbrúnir vangar sumarið 1961. Ég hef alltaf haldið mikið upp á það bæði vegna þess hve fallegt það er en líka af því að ég heyrði það áður en textinn varð til og beið spennt eftir að heyra útkomuna. Ég var með pabba í heimsókn á Heiðarvegi 31 þegar hann heyrði nýskapað lagið í fyrsta sinn. Oddgeir settist við píanóið og hóf forspilið sem mér hefur alltaf fundist svo ljúft. Þetta lag söng sig inn í sálina og ég lærði það á stundinni.
 
Þetta var yndislegt sumar, sól og blíða dag eftir dag. Eyjólfur bróðir minn var fjögurra ára og Óli var á fyrsta ári. Margar myndir eru til, merktar þessu ári, af litla barninu skríðandi úti á grasinu og af okkur sem eldri vorum úti í Klauf, sem sannar hve tíðin var blíð. Lagið og textinn anga af sumri og sól: Sólbrúnir vangar, siglandi ský og sumar í augum þér. Angandi gróður, golan hlý og gleðin í hjarta mér. Það var svo sannarlega gleði í okkar ranni. Heima hjá Geira og Svövu var Geiri yngri að verða eins og hálfs árs og stelpurnar þrjár, Hildur, Sara og Ögga, sín á hverju árinu, hver annarri hressari. Þetta voru hús full af börnum með tilheyrandi gleði og glaumi.
 
 
Reykingar sem mistókust
Sögur af tilraunum okkar stelpnanna til að hefja reykingar þessi árin í kindakofanum hans Krisjáns afa hennar Hildar eru utan ramma þessarar greinar en þær mistókust sem betur fer herfilega og má þakka fyrir að við kveiktum ekki í kofanum. Já, árið 1961 var svo sannarlega gott ár með miklum afla. Hin langlífa „Viðreisnarstjórn“ sem var hreint ekki studd á mínu heimili var að komast á skrið, innflutningshömlur að hverfa og „síldin á miðunum óð“, þangað til búið var að moka henni allri upp úr sjónum. Eitt laga þeirra félaga var einmitt um Síldarstúlkurnar samið á sjötta áratugnum. Það lag og texti hefur mér alltaf fundist einkar skemmtileg lýsing á lífi sem nú er horfið: Spriklandi silfur í sólareldi, sökkhlaðinn bátur í áfangastað, landað í skyndi og kysst að kveldi, kannastu bróðir við lífið það.
 
Árið eftir kom svo Ég veit þú kemur. Það er erfitt að leggja mat á lög og segja að eitthvað eitt sé best en svo mikið er víst að lag sumarsins 1962 sló í gegn á stundinni. Það var sungið og vangað við það alla þjóðhátíðina og eftir að það kom út í meðförum Ellýjar Vilhjálms varð það einfaldlega að klassík. Það er eins með texta, hvað er best? Ég minnist þess að þegar pabbi varð fimmtugur 1964 og mikið gilli haldið í Bæ, fór Oddgeir með hluta úr textanum Heima og sagði hans besta. Kannski rís textagerð pabba þar hæst: Hún rís úr sumarsænum, í silkimjúkum blænum, með fjöll í feldi grænum, mín fagra Heimaey. Það skiptir þó mestu að lag og texti eigi vel saman, textinn ýti undir lagið og öfugt. Textarnir hans voru misjafnir. Hann var t.d. í miklu óstuði fyrir eina þjóðhátíðina og gerði texta sem hann var hundóánægður með enda orti hann nýjan: Þá var ég ungur, sungið á plötu af Önnu Vilhjálms og Berta Möller. Surtsey varð innblástur þjóðhátíðarlagsins 1964 þegar gosið hafði staðið í tæpt ár og ekkert lát á sjónarspilinu með eldingum og reykjarstrókum.
 
 
Endir á merkilegri sköpun
Lögin urðu fleiri en skyndilegur dauði Oddgeirs 1966, svo langt fyrir aldur fram, batt enda á þessa merkilegu sköpun sem tengist svo sterklega lífinu í sjávarplássinu og sumarhátíðinni einu og sönnu þegar allir taka sér frí til að gleðjast saman.
 
Þótt textar pabba við lög Oddgeirs rísi að mínum dómi hæst á ferli hans sem textahöfundar þá orti hann svo margt annað sem vert er að halda til haga. Þar má t.d. nefna Barnabraginn sem fjallar um lífið á þjóðhátíð, Brennukónginn um dáðir Sigga Reim við eitt sænsku glúntalaganna, Undrahattinn, stælt og stolið lag sem til varð snemma á sjötta áratugnum, gamanvísur oft við erlend lög ortar af ýmsu tilefni, t.d. Áður var síldin um allan sjó og Blessuð sértu sveitin mín (sérdeilis í hægum lögum) sem tileinkað var Lúðrasveit Vestmannaeyja. Þá má ekki gleyma texanum við lagið hans Alfreðs Washington Þórðarsonar Heimaslóð en því hafði höfundurinn steingleymt þegar það var dregið upp úr pússi og sett á plötu meðan gosið stóð yfir 1973. Þar söng pabbi rámur og sárkvefaður en Alfreð eða Wosi, eins og hann var kallaður, spilaði undir enda fyrrum danspíanisti. Þar með komst það lag í umferð. Seinna gerði pabbi svo plötu með Eyjalögum.
 
Allt er þetta löngu liðin tíð og þegar horft er til baka er ég þakklát fyrir að hafa alist upp innan um alla þessa tónlist með öllu þessu yndislega fólki. Okkur sem tókum við gjöfum þeirra ber skylda til að standa vörð um arfinn, gæta hans og koma honum á framfæri. Það er ekki vansalaust hve við systkinin höfum staðið okkur illa í því en það stendur til bóta. Hvort sem við stöndum okkur betur eða verr í því munu lögin hans Geira og textarnir hans Ása standast tímans tönn. Verk þeirra tilheyra tímum þegar fólk kunni að dansa tangó og vals og flest voru lögin samin sem danslög. Þau eru bara svo góð, ýmist hressileg eða ljúf og falleg að þau eru hafin yfir tíma og rúm. Þess vegna lifa þau og munu vonandi lifa: „á meðan öldur una, í ást við fjörustein“.
 
Kristín Ástgeirsdóttir
Febrúar 2004