Oddgeir Kristjánsson var sonur hjónanna Kristjáns Jónssonar og Elínar Oddsdóttur en þau voru fædd og uppalin í Fljótshlíðinni en fluttu ung til Vestmannaeyja. Hann var fimmti í röðinni af 16 alsystkinum, fæddur 16. nóvember 1911. Tíu þeirra komust til fullorðinsára. Oddgeir átti einn hálfbróður, samfeðra.
 
Hann ólst upp í stórum systkinahópi. Það var eins og gefur að skilja þröngt í búi og því þurftu allir að leggja hönd á plóginn. Börnum á þessum tíma voru falin verk sem vinna þurfti fyrir heimilið og það skerti óneitanlega tómstundir þeirra. Tækifæri til náms umfram skyldunám barnaskólans voru fá. Og ekki mikil von til þess að hann gæti stundað tónlistarnám eins og hugur hans stóð til. Þó höguðu örlögin því þannig að hann var tæpra þrettán ára farinn að þeyta lúður í Lúðrasveit Vestmannaeyja þeirri annarri í röðinni. Hann var fyrst settur á tenórhorn en þótti það ekki sérlega spennandi hljóðfæri og vildi reyna sig á trompet. Fljótlega varð honum að ósk sinni og fékk trompet og náði fljótt góðum tökum á það hljóðfæri. Með þessari lúðrasveit starfaði Oddgeir þar til hún lagði upp laupana. Á unglingsárum fór hann einnig að æfa sig á fiðlu og seinna gítar og fleiri hljóðfæri.
 
Veturinn 1930 til 1931 lærði hann á fiðlu hjá Þórarni Guðmundssyni í Reykjavík. En þá var farið að syrta að í heimsmálunum og kreppan mikla svokallaða hafin. Þá var útséð um frekara nám í bili og ekkert annað að gera fyrir fátækan mann en snúa aftur heim. Í framhaldinu fór Oddgeir að kenna á ýmis hljóðfæri (fiðlu, gítar, blásturshljóðfæri) á heimili sínu og hélt því áfram alla ævi.
 
Oddgeir hóf að spila í hljómsveit um 1930. Hún var skipuð fiðlu (Oddgeir), píanói, trommu og saxofóni. Þessi sveit var sennilega sú fyrsta sem kalla má nafninu danshljómsveit í Eyjum og þótti mikil framför frá blessaðri harmonikunni. Hjómsveitinn hét Jazzinn og enduðu allar auglýsingar um dansleiki á þeim árum: Jazzinn spilar, Nefndin.
 
Um svipað leyti fór Oddgeir að semja lög. Það fyrsta að hans eigin sögn var lagið Rauðir hundar, en síðan komu lögin Góða nótt og Ship ohoj og svo koll af kolli. Fyrsta þjóðhátíðarlagið var Setjumst að sumbli árið 1933. Alls samdi Oddgeir hátt í 50 lög, 21 þeirra beinlínis fyrir Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Þrjú af eldri lögum hans voru svo notuð sem þjóðhátíðarlög eftir fráfall hans árin 1966 – 1968.
 
Oddgeir átti því láni að fagna að hafa í kringum sig góða vini sem margir voru einstakir textahöfundar. Fyrstan skal telja Árna Guðmundsson, Árna úr Eyjum, þá Loft Guðmundsson sem var kennari í Eyjum í um 10 ár og síðast en ekki síst Ástgeir Ólafsson, Ása í Bæ. Þar fyrir utan samdi Oddgeir lög við ljóð annarra skálda.
 
Hann endurvakti Lúðrasveit Vestmannaeyja 1939 ásamt Hreggviði Jónssyni og stjórnaði henni til dauðadags 1966. Lúðrasveit Vestmannaeyja var miklum meira en lúðrasveit sem hélt tónleika nokkrum sinnum á ári. Hún var félagsskapur manna og fjölskyldna þeirra, sem margir urðu mjög nánir vinir. Hún hélt skemmtanir fyrir eigin liðsmenn og aðra og var einnig ferðafélag. Á hennar vegum ferðuðust félagarnir með fjölskyldur sínar innanlands og utan og má geta nærri hvort það var ekki mikil upplyfting og stuðlaði m.a. að því að halda hópnum saman. Iðulega voru haldnir tónleikar á þessum ferðalögum og tækifærið nýtt til að hitta aðrar lúðrasveitir og halda með þeim tónleika. Þannig sköpuðust mikil vináttubönd þeirra manna sem höfðu forgöngu að starfi lúðrasveita á Íslandi. Oddgeir starfaði mikið að lúðrasveitamálum bæði í heimabæ sínum og innan SÍL (Sambands íslenskra lúðrasveita) og var fyrstum veitt var gullmerki sambandsins ásamt Karli Ó. Runólfssyni.
 
Eftir seinna stríð (1944) nam Oddgeir hljómfræði og tónfræði hjá Dr. Róbert A. Ottóssyni í Reykjavík. Námið stóð yfir í einn vetur en hélt svo áfram um tíma í gegnum bréfaskriftir, einskonar bréfaskóla.
 
Oddgeir starfaði lengst af sem verslunarmaður, m.a. í Vöruhúsinu sem Einar Sigurðsson ríki átti en varð forstjóri Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja um 1940. Hann tók að sér tónlistarkennslu í Barnaskóla Vestmannaeyja árið 1956 sem aðalstarf og kenndi þar til dauðadags. Þar stofnaði hann samfara kennslunni barnakór og lúðrasveit en einnig kom hann á laggirnar lúðrasveit í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja sem talin er fyrsta skólalúðrasveitin á landinu. Það voru því fjölmargir krakkar sem nutu leiðsagnar hans við söng og lúðrablástur á þessum árum og minnast þess enn með gleði. Því þó Oddgeir væri skapstór og stundum bráður gekk honum ákaflega vel að lynda við börn og hafði þann hæfileika og þá eftirfylgni til að bera að börn báru virðingu fyrir honum og lögðu sig fram um að ná árangri undir hans stjórn.
 
En Oddgeir átti sér fleiri áhugamál en tónlistina. Í grein sem Baldvin Þ. Kristjánsson fyrrverandi forstjóri Samvinnutrygginga skrifaði um Oddgeir að honum látnum segir:
"Oddgeir Kristjánsson var um margt einstæður maður. Hann hafði á sér ótvírætt yfirbragð listamannssálarinnar og gat verið sem af öðrum og æðra heimi- einhvern veginn ekki fallandi inn í allt í þessum. Þótt hann væri þjóðkunnur á vegum söngs og tóna sem snjall hljóðfæraleikari, stjórnandi og tónskáld, var honum samt fleira til lista lagt, sem minna bar á. Oddgeir unni blómum og gróðri og var verðlaunaður brautryðjandi í skrúðgarðarækt í Eyjum (ásamt konu sinni Svövu Guðjónsdóttur-innskot höf). Þá var hann og slyngur og sérstæður ljósmyndari, sem leiddi jafnvel innfæddum eyjamönnum ýmis áður ókunn einkenni staðarins fyrir sjónir".
 
Oddgeir var mikil bókaunnandi og las flest sem hann komst yfir og var með afbrigðum minnugur. Hann seldi einnig bækur fyrir Ragnar Jónsson í Smára og fyrir Mál og menningu.
 
Oddgeir kvæntist Svövu Guðjónsdóttur 15. desember 1933 og eignuðust þau þrjú börn, Hrefnu Guðbjörgu (1931), Kristján(1938-1947) og Hildi Kristjönu (1951). Kristján misstu þau ungan á níunda ári úr bráðaberklum. Sambúð þeirra var ákaflega farsæl. Heimili þeirra var mikið menningarheimili, alltaf opið fyrir vinum og kunningjum, nemendum og gestum ofan af landi hvort sem var til skemmri eða lengri tíma. Ekki var heldur óalgengt að ýmsir listamenn sem leið áttu til Vestmannaeyja kæmu við í Stafnesi, heimili þeirra hjóna, í kaffi eða matarboð og nytu þar gestrisni og félagsskaps þeirra.
 
Oddgeir Kristjánsson var kosinn Vestmannaeyingur tuttugustu aldar af Eyjamönnum í vikublaðinu Fréttum í Vestmannaeyjum sem sýnir ágætlega hve Vestmannaeyingar meta hann mikils.
 
Í janúar 2011 var stofnaður Minningasjóður Oddgeirs Kristjánssonar sem ætlað er að styrkja verkefni sem halda verkum hans og nafni á lofti. Einnig er opin vefsíða sem fjallar um líf hans og starf. Slóðin er www.oddgeir.is.
 
Oddgeir hafði aldrei tækifæri til að helga sig tónlistinni óskiptur, heldur var hún alltaf tómstundastarf hans, eftir að löngum vinnudegi var lokið. Það er því alveg ótrúlegt hve miklu hann hefur komið í verk. Lagasmíðar hans eru eitt en til viðbótar því gerði hann útsetningar fyrir Lúðrasveit Vestmannaeyja og barnalúðrasveitir, barnakóra og aðra hópa sem hann annaðist. Framan af voru allar raddir handskrifaðar og má geta nærri að það hefur tekið sinn tíma. Hann tók fullan þátt í ýmsum önnum bæjarfélagsins. Hann átti sæti í Bæjarstjórn Vm, sat í stjórn Byggðasafns Vm og í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja. Hér hefur ýmislegt verið upptalið af þeim verkum sem Oddgeir Kristjánsson sinnti um ævina en samt hefur margs ekki verið getið af öðrum verkefnum sem hann fékkst við á lífsleiðinni t.d. starf hans fyrir félögin Akoges og Rotary. Í Akoges félaginu samdi hann mörg lög við texta Árna úr Eyjum vinar síns sem flutt voru á árshátíðum þess félagas.
 
Oddgeir lést við kennslu í Barnaskóla Vestmannaeyja 18. febrúar 1966.
 
Hafsteinn G. Guðfinnsson