Reglur minningarsjóðs Oddgeirs Kristjánssonar

1. grein

Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Oddgeirs Kristjánssonar. Heimili hans og varnarþing er í Vestmannaeyjum.

2. grein

Sjóðurinn er stofnaður með peningaframlagi Kjartans Bjarnasonar frá Djúpadal, Vesturvegi 15A í Vestmannaeyjum, sem með erfðaskrá sinni gerði kunnugt að hluti eigna hans skyldu renna í sjóð til minningar um vin hans Oddgeir Kristjánsson tónskáld. Stofnfé sjóðsins er 16.000.000 kr. (sextán milljónir króna). Sjóðinn skal ávallt ávaxta á hinn besta og tryggasta hátt eins og stjórn sjóðsins metur það á hverjum tíma. Óheimilt er að leggja nokkrar skuldbindandi kvaðir á sjóðinn svo sem með lántökum eða öðrum slíkum bindandi aðgerðum.

3.grein

Tilgangur/markmið sjóðsins er að styrkja verkefni sem fjalla um líf og starf Oddgeirs Kristjánssonar tónskálds frá Vestmannaeyjum og stuðla að því að halda nafni hans á lofti. Þar getur verið um að ræða hvers konar nýja úrvinnslu eða nálgun á tónlistarverkum Oddgeirs, útgáfa, útsetningar, rannsóknir, kynningar og skrif eða önnur þau verkefni sem gera lífi hans og starfi skil.

4. grein

Félagið er áhugafélag. Tekjur sjóðsins verða vaxtatekjur og verðbætur af stofnfé og öðru því fé sem sjóðnum kann að áskotnast, svo sem með gjöfum, áheitum og öðrum framlögum.

5. grein

Stjórn sjóðsins skipa þrír menn og er hún valin til þriggja ára í senn frá 1. janúar að telja. Tveir stjórnarmanna eru tilnefndir af fjölskyldu Oddgeirs Kristjánssonar og fer annar með formennsku í sjóðnum. Bæjarstjórn Vestmannaeyja skal skipa hinn þriðja. Hverfi stjórnarmaður úr stjórn skulu sömu aðilar skipa nýja í þeirrra stað.

Stjórnin skal halda gjörðabók. Fjárreiður og reikningshald sjóðsins eru á hendi sjóðsstjórnar. Reikningsárið er almanaksárið og skulu reikningar gerðir af sjóðstjórn og yfirfarnir af skoðunarmanni.

Stjórn sjóðsins skal halda aðalfund fyrir 1.maí ár hvert þar sem birt skal skýrsla stjórnar og reikningar auk þess sem kosið skal til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Rétt til setu á aðalfundi hafa fjölskyldumeðlimir Oddgeirs Kristjánssonar og fulltrúi Bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

6. grein

Allar umsóknir sem berast sjóðnum skulu sendar inn af ábyrgðarmanni þess verkefnis sem sótt er um styrk fyrir. Hver styrkumsókn skal vera undirrituð af ábyrgðarmanni og henni skal fylgja greinargerð um markmið verkefnisins og áætlaðan heildarkostnað, fjármögnun og hvenær verkinu á að ljúka. Þá skal koma skýrt fram hversu háan styrk er sótt um til sjóðsins og hlutfall styrksins af áætluðum heildarkostnaði verkefnisins. Umsóknum skal skila í þríriti.

 Sá sem hlýtur styrk skal í lok verkefnis skila til sjóðsstjórnar samantekt og afriti af afurð verkefnisins og lýsingu á hvernig til hefur tekist með verkið.

 Stjórn sjóðsins er heimilt að hafa forgöngu um verkefni sem hún telur æskilegt að vinna sbr. tilgang sjóðsins í 3.grein.

7. grein

Stjórn sjóðsins er heimilt, ef hún telur þess þurfa, að kalla til ráðgjafar sérhæft fólk til að meta umsóknir sem sjóðnum kunna að berast.

8. grein

Sjóðstjórn er heimilt að ráðstafa öllum árstekjum sjóðsins árlega sbr. 4. grein. Ef umsóknir berast um álitleg verkefni sem krefjast meiri fjármuna er stjórn sjóðsins heimilt að nýta fé af höfuðstóli sjóðsins til sérstakra styrkveitinga. Þó má aldrei veita hærri styrk í eitt verkefni en sem nemur 10 % af upphaflegum höfuðstól sjóðsins að viðbættum árstekjum. Afgreiðsla styrkja úr sjóðnum skal háð samþykki allra stjórnarmanna. Þegar veittir eru stærri styrkir en 500.000 kr er stjórn heimilt að skipta greiðslum til styrkþega eftir því sem verkfefninu vindur fram.

9. grein

Ef fram koma annmarkar á reglumMinningarsjóðs Oddgeirs Kristjánssonar er stjórn heimilt að lagfæra þá og skulu breytingar kynntar á aðalfundi.  Meiriháttar breytingar skulu samþykktar á aðalfundi.

10. grein

Ef sjóðurinn hættir starfsemi af einhverjum sökum eða aðalfundur tekur ákvörðun um að slíta félaginu skal fé það sem þá kann að vera í honum renna til Styrktarsjóðs um menningarstarf í Vestmanneyjum.