Oddgeir Kristjánsson var sonur hjónanna Kristjáns Jónssonar og Elínar Oddsdóttur. Hann var fimmti í röðinni af 16 alsystkinum, fæddur 16. nóvember 1911.
 
Kristján (f. 13.3.1882, d. 19.8.1957) var ættaður frá Arngeirsstöðum í Fljótshlíð en Elín (f 27.1.1889, d. 19.3.1965) frá Ormskoti í sömu sveit. Þegar þau bundust tryggðarböndum var Elín aðeins 16 ára.
 
Á þessum árum var að hefjast nýtt tímabil í atvinnusögu landsins og mikið um að vera við sjávasíðuna. Ungt fólk flykktist til sjávarbæja og þorpa því þar var næga atvinnu að fá. Kristján og Elín sáu einnig þessi tækifæri og fluttu til Vestmannaeyja.
 
Þau bjuggu fyrst í Hvammi, svo á Gilsbakka en festu síðar kaup á helmingnum í litlu timburhúsi sem stóð við Strandveg og hét Garðstaðir. Þar fæddist Oddgeir Kristjánsson og tvö önnur systkini hans. Kristján lærði húsasmíðar og var það megin atvinna hans. Árið 1913 flutti fjölskyldan í nýtt hús sem Kristján byggði og kallaði Heiðarbrún. Það hús stendur enn og er númer 59 við Vestmannabraut. Þá hafði fjölskyldan efnast nokkuð og átti m.a. hlut í tveimur bátum.
 
Þegar kreppan skall á misstu Kristján og Elín megnið að eigum sínum en sátu uppi með skuldir á húsinu sem þau gátu ekki greitt. Þá voru góð ráð dýr. Úr rættist þó því Ólafur sonur þeirra byggði nýtt hús sem nefnt var Breiðabólstaður og stendur við Heiðarveg nr. 29. Þangað flutti fjölskyldan og bjuggu foreldrarnir þar til dauðadags.
 
Kristján og Elín eignuðust 16 börn en 6 þeirra dóu í frumbernsku. Þar fyrir utan eignaðist Kristján einn dreng.
 
Systkini Oddgeirs eru:
1. Óskar fæddur í febrúar 1907, deyr 9 mánaða
2. Óskar fæddur 17.4. 1908, d. 20.8.1980, ólst upp í Fljótshlíð hjá systur Elínar.
3. Ólafur Ágúst fæddur 12.8. 1909, d. 21.4.1989
4. Guðrún fædd 1910, lést nokkurra mánaða
5. Oddgeir fæddur 16. nóvember 1911, d. 18.febrúar 1966
6. Margrét Kristjánsdóttir f. 1912, d. 1912
7. Laufey Sigríður Kristjánsdóttir f. 30.12.1913, d. 5.10.1994
8. Jóna Margrét Kristjánsdóttir f. 13.1.1915, d. 2.1.1970
9. Friðrik Kristjánsson f. 1916, d. 1916
10. Klara Kristjánsdóttir f. 8.7.1917, d. 23.1.1993
11. Guðleif Hulda Kristjánsdóttir f. 1918, d. 1918
12. Gísli Kristjánsson f. 17.2.1920, d. 26.2.1995
13. Kristbjörg Kristjánsdóttir f. 8.4.1921, d. 24.11.1999
14. Haraldur Kristjánsson f. 22.2.1924, d. 12.9.2002
15. Friðrik Kristjánsson f. 1927, d. 1928
16. Lárus Kristjánsson f. 28.8.1929
17. Svanur Kristjánss (samfeðra) f. 9.2.1922, d. 22.11.2005